Segja að eignir hafi verið umfram skuldir

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

Fyrrverandi stjórnendur Landsbankans hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja það rangt sem Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði í Markaðnum í dag um að Landsbankinn hafi ekki átt eignir til þess að setja á móti Icesave innistæðum. Segir í yfirlýsingunni að ef farið hefði verið að kröfum breskra yfirvalda þá hefði það verið brot á lánasamningum bankans og öll fjármögnun hans í uppnámi.

„Vegna ítrekaðra umræðna um að aðgerðir breskra yfirvalda gegn dótturfélagi Kaupþings, Singer & Friedlander, tengdist á einhvern hátt málefnum Landsbankans og umræðum um Icesave reikningana á opinberum vettvangi, vilja fyrrverandi stjórnendur Landsbankans taka eftirfarandi fram:

Eignir vel umfram innistæður –Uppgjör staðfesta trausta stöðu:

1. Af umræðum, má ráða að Landsbankinn hafi ekki haft eignir til að setja á móti Icesave innistæðum og því ekki orðið af dótturfélagavæðingu reikninganna. Þetta er alrangt. Uppgjör bankans staðfesta að staðan var traust og eignir vel umfram skuldir, enda eigið fé og víkjandi lán bankans um 350 milljarðar skv. síðasta birta uppgjöri bankans þann 30.6.2008. Enda náðist fullt samkomulag við bresk yfirvöld (FSA) 29. maí um meðferð reikninganna, lausafjárstýringu og tilhögun markaðssetningar í framhaldi af þeirri umræðu sem varð á vormánuðum í tengslum við Icesave reikningana í breskum fjölmiðlum.

Meðfylgjandi yfirlit sýnir glöggt að ávallt var til nægilegt safn eigna til að mæta öllum skuldbindingum, þ.m.t. innlendum og erlendum innlánum,. Eftir að lögin frá 6. október tryggðu forgangsröðun innlána má líta svo á að allt eignasafn bankans hafi fyrst og fremst staðið á móti innlánum. Ástæðan fyrir því að ekki var búið að klára þá vinnu sem hófst í haust að umbreyta útibúi bankans í dótturfélag var því ekki að eignir væru ekki nægar. Umræður strönduðu á lagalegum atriðum.

Breskt yfirvöld voru því miður ekki tilbúin til að koma til móts við Landsbankann um að leyfa bankanum að mynda jafnvægi milli inn- og útlána í skrefum og þannig tryggja að lánasamningar bankans stæðust. Ef bankinn hefði gengið að kröfum Breta um að færa útlánasafn yfir í dótturfélag í einu lagi hefði það verið brot á lánasamningum bankans og öll fjármögnun bankans verið í uppnámi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Umræður um að Icesave kröfur lendi á þjóðarbúinu

2. Innlán sem nú eru, ásamt endurhverfum viðskiptum, forgangskröfur í heildareignir gömlu bankanna námu í tilviki Landsbankans um 50% af heildareignum. Miðað við 30. sept. 2008 nam sú fjárhæð um 2.200 milljörðum, þar af eru um 1.300 milljarðar í erlendum innlánum og tæplega 500 milljarðar innlendum innlánum. Eignir bankans á þessum tíma voru hins vegar um 4.400 milljarðar eða langt umfram ofannefnda fjárhæð.

3. Umræður um að Icesave kröfur lendi á þjóðarbúinu á nokkrum misskilningi byggðar, burtséð frá deilum íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda um réttarstöðu innlánseigenda í Bretlandi og Hollandi og greiðsluskyldu íslenska Tryggingarsjóðsins. Þetta sést gleggst á því að þótt tjónið af hruni bankanna með þeirri aðferð sem beitt var við þjóðnýtingu bankanna og ólögmætar og óréttmætar aðgerðir Breta sé mikið, þurfa 50% af eignum bankans, sem voru um 4.400 milljarðar miðað við 30. sept. 2008, að glatast til þess að ekki séu nægar eignir til að mæta forgangskröfum gagnvart bankanum.

Hins vegar er ljóst að þessar eignir eru ekki lausafé og því er eðlilegt að það þurfi lántökur í ákveðinn tíma á meðan eignunum er komið í verð og lánasafn bankans innheimtist. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að ætlast til þess af lánþegum bankans að þeir greiði upp sín lán fyrir gjalddaga. Vönduð vinna við sölu eigna og aðra úrvinnslu á lánasafni bankans skiptir því miklu máli um niðurstöðu málsins.

Efnahagslegt skaðaverk Breta á íslenskum hagsmunum:

4. Aðgerðir breskra yfirvalda gegn Landsbankanum að morgni 8. október síðastliðinn, þegar Heritable bankinn, dótturfélag Landsbankans, og útibú hans í London, voru yfirtekin, eiga sér enga hliðstæðu og hafi valdið ómældu tjóni. Í bresku lögunum sem beitt var eru sett þau skilyrði fyrir beitingu þeirra að aðgerðir hafi verið framkvæmdar eða eru líklegar til að vera framkvæmdar sem að mati ríkisstjórnarinnar eru til þess fallnar að valda tjóni á efnahag Bretlands.

Bresk stjórnvöld fóru langt út fyrir valdsvið sitt þegar þau beittu lögunum gegn Landsbankanum. Til dæmis má nefna að innlán Landsbankans í Bretlandi námu aðeins um 0,5% heildarinnlána og því langt frá því að geta ógnað efnahagslegum stöðugleika. Þá voru ekki yfirvofandi neinar fjárhagslegar tilfærslur sem mögulega gætu ógnað efnahagslegum stöðugleika í Bretlandi. Þvert á móti var Landsbankinn að færa fjármagn til breska útibúsins fyrir umrædda helgi og æðstu ráðamenn Bretlands vissu það.

Aðgerðir breskra yfirvalda gegn dótturfélagi Kaupþings, Singer & Friedlander, síðar þá viku voru á eigin forsendum og tengdust ekki málefnum Landsbankans eins og kom fram m.a. á breska þinginu.

Niðurlag

Vonandi munu þeir sem nú bera ábyrgð á því verki að koma eignum bankans í verð og innheimta lánasafn bankans sem og aðrar kröfur, þ.e. starfsmenn nýja bankans og skilanefnd Landsbankans ná að varðveita nægjanlegar eignir til að tryggja að þetta gangi fram. Hins vegar er ljóst að eftir hrun kerfsins og þær víðtæku afleiðingar sem það kemur nú til með að hafa á efnahagslíf okkar Íslendinga skiptir miklu máli við endanlega niðurstöðu á mati á eignum," að því er segir í yfirlýsingu fyrrum Landsbankastjórenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert