Maður var stunginn með hníf í Bankastræti við Lækjarbrekku um hálf fimm leytið í nótt. Einn maður er í haldi lögreglu grunaður um verknaðinn. Ekki er talið að áverkar hins særða séu alvarlegir.
Að sögn lögreglunnar í Reykjavík var talsverður erill og mikið um ölvun í miðbænum í nótt. Fyrir utan hnífsstunguna var tilkynnt um sjö líkamsárásir í miðbænum og sjö ökumenn voru teknir ölvaðir við akstur.
Þá fékk lögregla í morgunsárið tilkynningu um mann sem var að vaða í sjónum úti við Kirkjusand. Var hann ofurölvi og illa áttaður en lögregla náði honum á land og hefur hann fengið aðstoð.