64 prósent Reykvíkinga er þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Fylgi Reykvíkinga við núverandi staðsetningu flugvallarins hefur aukist um 18 prósentustig síðan í maí 2005. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Capacent Gallup vann í september og byrjun október fyrir Flugstoðir ohf.
Að mati 68% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur á ekki að færa flugvöllinn og 78% íbúa annarra sveitarfélaga landsins eru sömu skoðunar.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsinga og kynningafulltrúi Flugstoða, bendir á að könnunin sé gerð fyrir efnahagshrunið. „Við vildum kanna hug fólks til flugvallarins. Flugstoðir vilja byggja völlinn upp í Vatnsmýrinni á meðan hann er þar. En það er ekki okkar að ákveða hvar flugvöllurinn á að vera til framtíðar."
Samkvæmt könnuninni telur helmingur kjósenda Samfylkingar rétt að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram þar sem hann er. Mun meira fylgi er við núverandi staðsetningu flugvallarins hjá kjósendum annarra flokka. Þannig telja 92% kjósenda Framsóknarflokksins að völlurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni, 75% kjósenda Sjálfstæðisflokks og 71% kjósenda Vinstri grænna.
Könnunin, sem er netkönnun, var gerð 25. september til 5. október síðastliðinn. Úrtakið var 1.200 manns af landinu öllu á aldrinum 18 til 75 ára. Þeir voru valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og svöruðu 67,5% þeirra.
Um hálf milljón farþega fóru um Reykjavíkurflugvöll á síðasta ári og fjölgaði þeim um rúmlega 12% frá árinu áður, samkvæmt upplýsingum Flugstoða.