Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur mbl.is
Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokks, sendi í kvöld öllum fjölmiðlum í tölvupóstafriti bréf tveggja flokksbræðra sinna þar sem þeir gagnrýna Valgerði Sverrisdóttur, varaformann flokksins og fyrrverandi viðskiptaráðherra, harðlega fyrir þátt hennar í einkavæðingu bankanna á sínum tíma og afstöðu til Evrópusambandsaðilar.
Í orðsendingu til aðstoðarmanns síns biður hann um að hann sendi bréfið fjölmiðlum úr nafnlausu tölvupóstnetfangi og má af því ráða að bréfið hafi farið fyrir mistök úr tölvupóstfangi Bjarna beint á fjölmiðla. Í öðrum tölvupósti sem sendur var fjölmiðlum kortéri síðar biður hann um að horft sé fram hjá fyrri sendingu hans.
Inntur eftir því hvers vegna hann hafi beðið aðstoðarmann sinn um að senda bréfið nafnlaust til fjölmiðla segir Bjarni það hafa verið samblöndu af hvatvísi og hálfkæringi. „Við höfðum nú rætt um þetta bréf í síma rétt áður og það var nú ekki staðfastur ásetningur að þetta yrði sent heldur sendi ég þetta og hringdi svo í hann og hafði ekki gert mér grein fyrir mistökunum þá.“
Hann segist hafa í símtalinu beðið aðstoðarmann sinn um að hinkra með sendinguna en þá hafi komið í ljós að það væri of seint. „Þetta er gert í mikilli hvatvísi og ég bið bæði bréfritarana og Valgerði velvirðingar á því.“
En telur Bjarni ekki ódrengilegt af sinni hálfu gagnvart Valgerði að óska eftir því að bréfið sé sent nafnlaust á fjölmiðla?
„Það er alveg rétt mat hjá þér, enda endurskoðaði ég þá hugmynd strax í símtali við minn aðstoðarmann á eftir.“
Hvað með flokkinn, það hefur ekki beinlínis verið lygnt í þingflokk Framsóknarflokksins á undanförnum misserum?
„Það hefur verið mjög mikill ágreiningur í flokknum um Evrópumálin,“ svarar Bjarni. „Það endurspeglast í skrifum þeirra félaga fyrir norðan. Það er ekkert nýtt við það.“