Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, sendi í kvöld fyrir mistök bréf á alla fjölmiðla landsins þar sem Bjarni biður aðstoðarmann sinn um að senda harðort bréf til Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns flokksins, til fjölmiðla. Bjarni tók hins vegar fram að það eigi ekki að koma fram hver sendi bréfið.
„sæll
hér er merkilegt bréf
ertu til í að búa til anymous netfang og senda þetta úr því á alla fjölmiðla
-b,“ segir í tölvupóstinum sem Bjarni sendi aðstoðarmanni sínum í kvöld, en um leið á alla fjölmiðla landsins.
Skömmu síðar sendi hann annan tölvupóst til fjölmiðla þar sem hann sagði þann fyrri hafa farið út fyrir mistök og bað um að fyrra bréfinu yrði eytt og að fjölmiðlar nýti hvorki efni þess né þessi mistök hans.