Framtíðarsýn í greiðslustöðvun

Framtíðarsýn, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, hefur óskað eftir greiðslustöðvun og hefur öllu starfsfólki blaðsins verið sagt upp störfum frá og með næstu mánaðamótum. Exista er aðaleigandi Framtíðarsýnar. Afráðið hefur verið að draga saman í útgáfu blaðsins og mun það breytast í vikurit, að því er fram kemur á vef Viðskiptablaðsins.

„Erfitt rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur mjög verið til umfjöllunar undanfarið – er þar ekki einasta rætt um efnahagslægð sem dregur úr allri umsetningu, heldur bætist við brengluð samkeppni á auglýsingamarkaði.

Víst er að útgáfa Viðskiptablaðsins hefur ekki farið varhluta af þessum hremmingum.

Vegna viðvarandi rekstrarerfiðleika sem af þessu leiðir þá hefur nú verið afráðið að draga saman útgáfu blaðsins og einskorða hana hér eftir við eitt tölublað í viku.

Rekstur fréttavefsins www.vb.is verður óbreyttur.

Með það fyrir augum að skapa ráðrúm til endurskiplagningar rekstrarins, hefur verið sótt um leyfi til greiðslustöðvunar fyrir Framtíðarsýn hf., útgáfufélag Viðskiptablaðsins hjá þar til bærum yfirvöldum í dag mánudaginn 11. nóvember 2008. Gert er ráð fyrir að slíkt leyfi liggi fyrir fljótlega.

Þá mun öllum starfsmönnum félagsins, rúmlega 40 að tölu, verða sagt upp störfum frá og með næstkomandi mánaðamótum," segir í yfirlýsingu á vef Viðskiptablaðsins frá framkvæmdastjóra þess, Haraldi Flosa Tryggvasyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka