Fulltrúar breskra sveitarfélaga á leið til Íslands

Fulltrúar breskra sveitarfélaga ætla að senda nefnd til Íslands til að ræða við stjórnendur íslenskra banka um innistæður á reikningum  í Bretlandi. Munu fulltrúar Kent fara fyrir nefndinni en sveitarfélagið átti um 50 milljónir punda inni á íslenskum bankareikningum.

Fram kemur á fréttavef BBC, að bæjarsjóður Kent hafi átt fé inni á reikningum hjá Landsbanka,  Heritable sem er dótturfélag Landsbankans og hjá Glitni. 

„Bæjarráðið er staðráðið í að fá allt sitt fé til baka," er haft eftir talsmanni. 

Embættismenn vonast til að 18 milljónir punda, sem voru á reikningum í Heritable, séu öruggar en vilja fá upplýsingar frá stjórnendum Landabankans og Glitnis um innistæður sínar. Vonast er til að skilanefndir bankanna geti veitt upplýsingar um skuldbindingar og eignir og hvað kröfuhafar geti átt von á að fá.

Talsmaður Kent sagði að fundurinn myndi auka skilning á stöðunni á Íslandi og gefa stjórnvöldum í sveitarfélaginu kleift að meta hvernig best sé að standa að því að endurheimta féð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka