Mega geyma þriðjung kvótans milli ára

Heimilt verður að flytja 33% aflamarks í botnfiski milli fiskveiðiára í stað 20% eins og nú er, samkvæmt ákvæðum frumvarps Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fyrsta umræða um frumvarpið fer fram á Alþingi í dag.

Heimild til þess að flytja ákveðið hlutfall aflaheimilda milli fiskveiðiára hefur verið í lögum frá upphafi kvótakerfisins. Slík heimild hefur verið talin heppileg til þess að auka sveigjanleika fiskveiðistjórnarkerfisins og koma í veg fyrir bæði brottkast og að grípa þurfi til viðurlaga vegna umframafla. Þá hefur heimildin verið talin fallin til hagkvæmari nýtingar einstakra fiskstofna. Markaðsaðstæður og sveiflur í úthlutun einstakra tegunda geta auk þess gert það æskilegt að hafa þennan möguleika til flutnings milli fiskveiðiára. Heimild til að fresta nýtingu aflaheimilda milli ára hefur verið ríkari en heimild til veiða fyrir fram og styðst það við þá staðreynd að stofn gefur að jafnaði meira af sér þegar veiðum úr honum er frestað. Fiskifræðileg rök hníga því að auknum geymslurétti.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að beiðni um aukin geymslurétt hefur borist frá útgerðarmönnum smærri og stærri skipa. Þeir hafa bent á að heppilegt gæti verið að nýta slíka heimild í ýsu þar sem líklegt megi telja að leyfilegur ýsuafli dragist saman á næsta ári. Því gæti komið sér vel að geyma meira frá þessu fiskveiðiári til þess næsta. Hið sama gildi um aðrar tegundir.

Gangi frumvarp sjávarútvegsráðherra eftir verður ennfremur heimilt að 5% umfram aflamark í humri á einu fiskveiðiári sem dregst frá heimildum næsta árs á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert