Forystumenn í atvinnulífinu hafa miklar áhyggjur af stöðu fyrirtækjanna í núverandi efnahagsárferði. „Því var varpað fram í umræðum á fundi viðskiptanefndar Alþingis að líklega mætti ætla að 60-80% allra fyrirtækja í landinu væru tæknilega gjaldþrota,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Í Morgunblaðinu á föstudag kom fram að aðilar vinnumarkaðarins hefðu verið nokkuð svartsýnir á fundi viðskiptanefndar Alþingis.
„Það sem er verið að vísa til er fyrst og fremst að eigið fé mjög margra fyrirtækja hefur brunnið í ljósi utanaðkomandi atriða eins og verðtryggingar og gengisskráningar. Skuldir hafa vaxið gríðarlega því mörg fyrirtæki eru með lán í erlendri mynt,“ segir Jón Steindór.
Hann segir að þetta hlutfall, 60-80%, byggi meira á tilfinningu en tölfræðilegum staðreyndum. Atvinnulífið í heild sé mjög skuldsett og full ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni.
Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, segir að ef fyrirtæki, sem eru með eignir í krónum og stóran hluta skulda í erlendri mynt, væru gerð upp núna og það skilaði neikvæðu eigin fé hjá þeim þá væru þau „gjaldþrota í ákveðnum skilningi“.
Það myndi þó ekki endilega þýða endalok þessara sömu fyrirtækja. „Í fyrsta lagi gæti gengið lagast og þá gætu fyrirtækin staðið undir skuldbindingum sínum á hagstæðara gengi,“ segir Gylfi.
Hann nefnir samt að í einhverjum tilfellum sé ekki hægt að halda rekstri áfram nema með því að afskrifa einhvern hluta skulda, eins og gert sé í t.d neyðarsamningum.
Sumir hafa áhyggjur af stöðu nýju bankanna þegar rekstur marga fyrirtækja, sem eru stórir lántakendur hjá bönkunum, er í hættu. Bent hefur verið á að ef ákveðinn hluti fyrirtækja greiddi ekki afborganir af skuldum sínum næsta mánuðinn væri eigið fé nýju bankanna í uppnámi og þar með fyrirgreiðsla við allt atvinnulífið einnig.
„Það er alveg rétt að nýju bankarnir tóku við lánasöfnum gömlu bankanna og í mörgum tilvikum er ekki víst að öll lán verði endurgreidd að fullu. Það verður að taka tillit til þess að þegar eignir gömlu bankanna voru færðar yfir þá varð að færa þær með einhverjum afföllum,“ segir Gylfi.
Hann segir að ekki sé hægt að gera þá kröfu til nýju bankanna að þeir greiði fullt verð fyrir lánasöfnin. Hann segir styrk nýju bankanna ráðast af því hversu mikil afföll verði af þessum sömu söfnum. „Þó að skuldunautar bankanna lendi í vandræðum með afborganir í einn eða tvo mánuði þá er það ekki óviðráðanlegt vandamál,“ segir Gylfi.