Hvorki fjármálaráðherra né viðskiptaráðherra virðast hafa haft hugmynd um að erfiðlega gengi að koma Icesave reikningum Landsbankans yfir í dótturfélag . Forstjóri Fjármálaeftirlitsins sagði um helgina að Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra hefði ekki verið skýrt frá málinu í vor. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir að erfiðleikar bankanna hafi verið til umfjöllunar lengi en honum hafi ekki verið kunnugt um að vandamál Landsbankans með Icesave reikningana kölluðu á róttækar aðgerðir fyrr en í byrjun september.
Þegar hann er spurður hvort ekki hafi verið óeðlilegt að leyfa Landsbankanum að stofna slíka innlánsreikninga í Hollandi í maí í ljósi þess að vandamál bankanna hafi verið til umræðu segist hann ekki vita hver ferill málsins hafi verið eða hver tók þá ákvörðun. Hún hafi allavega ekki verið borinn undir hann.
Fjármálaeftirlitið hefði getað stöðvað stofnun slíks útibús en ráðherrann vill ekki tjá sig um það enda heyri Fjármálaeftirlitið ekki undir hann. Hann segist ekki vilja gagnrýna samráðherra sína eða þær stofnanir sem verið sé að vinna með. Hann segir hinsvegar augljóst að það regluverk sem ESB og EES löndin komu sér saman um hafi verið ófullnægjandi.