Starfsfólk Viðskiptablaðsins sent heim

mbl.is/G. Rúnar

Haraldur Flosi Tryggvason, framkvæmdastjóri Viðskiptablaðsins, segir að allt starfsfólk blaðsins hafi verið sent heim í dag nema þeir sem vinni við vef blaðsins en stefnt sé að fundi með starfsmönnum í hádeginu á morgun. Eins og fram hefur komið hefur Framtíðarsýn, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, óskað eftir greiðslustöðvun og öllu starfsfólki sagt upp, rúmlega 40 manns.

Í samtali við mbl.is segir Haraldur Flosi að Viðskiptablaðið muni næst koma út á föstudag og aðrir útgáfudagar verði felldir niður. Ekki liggur ljóst fyrir hver framtíð Fiskifrétta verður en blaðið fylgir Viðskiptablaðinu einu sinni í viku. Segir Haraldur Flosi eðlilegt að áherslur muni breytast í föstudagsblaðinu í kjölfar breytinga yfir í vikublað. Hann segir ekki ljóst hve margir verði endurráðnir til blaðsins en ljóst megi vera að verulegur hluti starfsmanna verði ekki endurráðinn.

Haraldur Flosi á von á því að Héraðsdómur Reykjavíkur taki greiðslustöðvunaróskina fyrir síðar í dag en hefðbundið sé ef veitt sé slík heimild að hún gildi í þrjár vikur. Sá tími verði nýttur til þess að endurskipuleggja alla starfsemi Framtíðarsýnar, en félagið er í eigu Exista.

Að sögn Haraldar Flosa eru áskrifendur Viðskiptablaðsins á milli fjögur og fimm þúsund talsins en fjöldi seldra blaða fari mest í sjö þúsund eintök með lausasölu. Hann segir að eitthvað hafi verið um uppsagnir á áskrift að undanförnu en í litlum mæli og lausasala hafi aukist á sama tíma. 

Áskriftarverð Viðskiptablaðsins er 3.800 krónur á mánuði og ekki hefur verið ákveðið hvort það verð muni lækka með færri útgáfudögum en Haraldur Flosi segir að þegar útgáfudögum blaðsins var fjölgað á síðasta ári hafi áskriftarverðið ekki hækkað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert