Áform orkufyrirtækja í hættu

mbl.is/GRG

Stærstu orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, glíma öll við fjármögnunarvanda vegna erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum hér á landi sem og erlendis.

Áætlanir um framkvæmdir, stórar sem smáar, sem áætlaðar eru á næsta ári, eru í uppnámi vegna erfiðleika við að útvega lán erlendis. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur verið leitað til yfir þrjátíu fjármálastofnana með lánamöguleika í huga en jákvæð svör um lán vegna framkvæmda hafa ekki borist.

Ekki er búist við því að möguleikar fyrir lán muni opnast á næstu mánuðum, nema að trúverðugleiki íslenskra fjármálastofnana, og í raun íslensks efnahags í heild, taki snöggum breytingum til hins betra. Ekki er búist við því að svo verði.

Á fundi iðnaðarnefndar Alþingis með forsvarsmönnum orkufyrirtækjanna voru bornar upp spurningar um skuldastöðu fyrirtækjanna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) spurður út í skuldastöðu fyrirtækisins, og svaraði hann því til að það væri ekki gott að segja hvernig skuldastaðan væri í dag en hann hefði hins vegar vitað hvernig hún hefði verið í gær. Gríðarlega hröð veiking krónunnar hefur aukið skuldir orkufyrirtækjanna, sem eru með öll sín lán í erlendri mynt, um hundruð milljóna á degi hverjum undanfarna mánuði. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku hafa skuldir OR aukist um 440 milljónir á dag undanfarna þrjá til fjóra mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, gætir mikillar óvissu um virkjanaáform næstu misserin en vonir standa þó til þess að hægt verði að ráðast í þau, þó síðar verði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert