DV hefur sent frá sér yfirlýsingu sem svar við yfirlýsingum frá embættum ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu leynd hvílir yfir vígbúnaði lögreglunnar. Segir blaðið m.a. að viðbrögð lögreglunnar einkennist af einbeittum vilja til að draga úr trúverðugleika fjölmiðilsins, á kostnað þess að upplýsa borgara um þau valdbeitingartól sem lögreglan hyggst nota gegn þeim.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Undanfarna daga hefur DV reynt að fá skýr svör frá ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra um vígbúnað lögreglunnar. Greint var frá því í DV á fimmtudag að lögreglan hefði fengið heimild til nýráðninga 250 héraðslögreglumanna. Þá var greint frá yfirlýstum vilja innan lögreglunnar að taka upp taser-rafbyssur til nota gegn almennum borgurum, sem og valdbeitingarhunda.
Í þessari viðleitni blaðsins til að upplýsa almenning um athafnir lögreglunnar sem varða þjóðaröryggi, hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ýmist lýst yfir minnisleysi eða að tiltekin mál séu leyndarmál ríkisins. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur alls ekki svarað, nema eftir umfjallanirnar í yfirlýsingum í Morgunblaðinu.
Yfirlýsingar lögreglu vegna málsins, sem vefur Morgunblaðsins hefur birt gagnrýnislaust og án frekari rannsóknar, hafa gefið sérstaklega villandi mynd af fréttaflutningi DV. Þannig lætur ríkislögreglustjóri í það skína að DV hafi fullyrt að lögreglan hefði taser-rafbyssur og valdbeitingarhunda. Í frétt DV er á engan hátt fullyrt að lögreglan hefði þegar yfir rafbyssum eða valdbeitingarhundum að ráða, heldur var greint frá yfirlýstum vilja til að útvega lögreglunni þau valdbeitingartól og -dýr.
Einnig hefur borist yfirlýsing frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins, þar sem fréttaflutningur DV er borinn til baka. Það er illskiljanlegt í ljósi þess að í frétt DV var fjallað um ríkislögreglustjóra en ekki lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Viðbrögð lögreglunnar einkennast af einbeittum vilja til að draga úr trúverðugleika fjölmiðilsins, á kostnað þess að upplýsa borgara um þau valdbeitingartól sem hún hyggst nota gegn þeim. Ríkislögreglustjóri sakar DV um „uppspuna“ vegna fréttar um að lögreglan vígbúist, þrátt fyrir að lögreglan hafi nú fengið heimild ráðherra til 250 manna liðsauka héraðslögreglumanna, sem er um það bil sami fjöldi og dómsmálaráðherra var synjað um fyrir varalið lögreglu í frumvarpi á Alþingi. Að auki hefur lögreglan og dómsmálaráðherra lýst yfir vilja sínum að beita rafbyssum og valdbeitingarhundum á óhlýðna borgara. Amnesty International hefur varað við þessu.
Ríkislögreglustjóri sagði það „uppspuna“ að verið væri að sérútbúa bifreiðar fyrir lögregluna, sem nota mætti við mannfjöldastjórnun, en DV birti í kjölfarið myndir af sérútbúinni bifreið sérsveitarinnar sem kom á götuna á þessu ári sem og bryndreka lögreglunnar sem geymdur er í skemmu í Hvalfirðinum. Samkvæmt heimildum DV var um að ræða sex breytta bíla lögreglunnar, og hafa nú verið birtar myndir af þremur slíkum. Sá fyrirvari var settur í frétt DV að dómsmálaráðherra kannaðist ekki við bifreiðarnar og voru svör hans birt.
DV birti myndband af valdbeitingarhundinum Skolla, þar sem lögreglumaður sigaði honum á „þjóf“ á hundasýningu, í þeim tilgangi að sýna fram á að lögreglan hefði þjálfað valdbeitingarhunda. Það stangast á við yfirlýsingu lögreglunnar um að hún hefði ekki valdbeitingarhunda. Valdbeitingarhundurinn Skolli er ekki lengur á lífi, en tekið var fram í kynningu á honum að lögreglan hefði yfir að ráða sex fullþjálfuðum hundum til viðbótar. Svo kann að vera að allir hundarnir sjö hafi týnt lífi á tveimur árum og lögreglan hafi ekki lengur yfir slíkum hundi að ráða.
Ríkislögreglustjóri segir á hinn bóginn í einni af þremur yfirlýsingum sínum að lögreglunni sé óheimilt að þjálfa slíka hunda án leyfis frá honum. „Óheimilt er að þjálfa eða taka í notkun hund til valdbeitingar nema að fengnu leyfi embættis ríkislögreglustjóra samkvæmt reglum þar um. Embættið hefur ekki veitt slík leyfi.“
Því standa eftir þrír möguleikar.
1. Lögreglumenn brutu lög með því að þjálfa valdbeitingarhunda án leyfis og allir sjö þeirra eru dauðir.
2. Hundurinn var þjálfaður af aðila utan lögreglunnar og í kjölfarið sýndur á hundasýningu af lögreglumanni undir fölsku flaggi.
3. Ríkislögreglustjóri sagði ósatt þegar hann fullyrti að lögreglan hefði ekki valdbeitingarhunda.
Mikil leynd hvílir yfir vígbúnaði lögreglunnar. Það er skilyrðislaust hlutverk DV að upplýsa almenning um þau mál. Þeirri viðleitni mun ekki linna, þrátt fyrir að lögreglan beiti spuna til að vega að fjölmiðlinum, sem vefur Morgunblaðsins birtir gagnrýnislaust undir yfirskriftinni „helst í fréttum“ og án nokkurrar tilraunar til að kanna málið nánar.
Sjá meðfylgjandi hlekki á umfjallanir:
http://www.dv.is/frettir/2008/11/11/brynvagn-loggunnar-tilbuinn-i-oeirdirnar/
http://www.dv.is/frettir/2008/11/8/logregla-synir-valdbeitingarhund-luskra-thjofi/
http://www.dv.is/frettir/2008/11/7/vikurfrettir