José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi í Brussel í dag að Ísland yrði að leysa deilumál við nokkur aðildarríki sambandsins áður en það gæti fengið svokalla macrofinancial aðstoð úr sjóðum sambandsins.
„Framkvæmdastjórnin mun leggja til við aðildarríki Evrópusambandsins að Ísland fái slíka aðstoð í formi lána sem yrðu viðauki við lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,“ sagði Barroso. Það verði þó einungis hægt að því tilskyldu að Ísland geri upp deilumál sín varðandi tvíhliða samninga um tryggingar á innistæðum erlendra sparifjáreigenda á íslenskum bankareikningum. „Við teljum mikilvægt að fyllsta jafnræðis verði gætt,“ sagði Barroso. Aðildarþjóðir Evrópusambandsins fari fram á að gildi tilskipunar ESB um gagnkvæmar innistæðutryggingar, sem gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu sé virt.
Barroso sagði að framkvæmdastjórn ESB hefði borist beiðni um aðstoð bréfleiðis frá Geir H. Haarde þann 2. nóvember síðastliðinn. Macrofinancial-aðstoð Evrópusambandsins er hugsuð fyrir þær Evrópuþjóðir sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu og hafi annan gjaldmiðil en evru.