Engar útskýringar á frestun

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Reuters

Staðhæft er í frétt Financial Times, um frestun á afgreiðslu láns Alþjóðagjaldeyrisstjóðsins til Íslendinga, að 500 milljónir dollara vanti enn upp á að Íslendingar geti fjármagnað þann  björgunarpakka sem gert er ráð fyrir í lánsumsókninni. Þá segir að breskir ráðamenn vísi því algerlega á bug að þeir hafi staðið í vegi fyrir afgreiðslu lánsins.Fram kemur í fréttinni að engin opinber skýring hafi verið gefin á frestun afgreiðslu umsóknarinnar og að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hafi í gær lýst yfir stuðningi sínum við að Íslendingar fengju lánið.

Hins vegar segir að Íslendingar hafi sterkan grun um að tafirnar tengist deilum Íslendinga og Breta vegna Icesave reikninganna. Haft eftir Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra og starfandi utanríkisráðherra, að hann hafi rætt við fulltrúa breskra yfirvalda sem hafi sagt að niðurstaða yrði að liggja fyrir í öðrum málum áður en þeir gætu stutt lánveitinguna. „Ég var ekki í neinum vafa um það við hvað var átt,“ sagði Össur.

Einnig er í greininni vísað til ummæla Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, í sjónvarpsviðtali en þar sagði hann að Hollendingar myndu leggjast gegn láni IMF til Íslendinga þar til niðurstaða fengist í Icesave málið. „Til allrar hamingju eigum við jafn sterka samherja og Breta og Þjóðverja sem einnig eiga í sams konar deilum við Íslendinga,” sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka