Pilturinn sem brenndist mest í gassprengingu í vinnuskúr í Grundargerðisgarðinum í Reykjavík fyrir um hálfum mánuði er enn í sóttkví á Landspítalanum í Fossvogi til að verjast því að sýking berist í brunasárin. Systir hans sem einnig brenndist illa losnaði úr sóttkvínni á sunnudag. Faðir þeirra segir þau á ágætum en hægum batavegi.
Systkinin brenndust bæði illa á höndum en að sögn föður þeirra virðist sem brunasárin í andliti þeirra muni jafna sig. Sjón þeirra skaddaðist ekki.
Pilturinn er með þriðja stigs brunasár á báðum höndum og upp eftir öllum hægri handlegg og hefur þurft að fjarlægja húð af öðru læri hans til að græða í sárin. Sárin eru svo alvarleg að ekki er víst að hann fái aftur fulla hreyfigetu í hægri hendi. Stúlkan slasaðist minna en þó er hugsanlegt að græða þurfi húð á hendur hennar.
Vegna áverka sinna þarf pilturinn að vera á sterkum verkjalyfjum. Bæði klæjar þau óskaplega í sárin og er farið að leiðast mjög dvölin á sjúkrahúsinu, einkum finnst stúlkunni, sem er orðin fótafær, erfitt að komast ekki heim til sín.
Að sögn föður þeirra hefur dvölin í sóttkvínni reynt mikið á en meðan á henni stendur er heimsóknarréttur einskorðaður við foreldra. Hver sá sem fer inn í sóttkvína verður fyrst að klæðast sótthreinsuðum fatnaði og þrífa hendur upp úr spritti.