Forseti Íslands mun ekki tjá sig ekki um efni þeirra umræða sem fram fóru á hádegisverðarfundi hans með erlendum sendiherrum og fulltrúum sendiskrifstofa síðastliðinn föstudag, samkvæmt upplýsingum skrifstofu forseta Íslands. Samkvæmt upplýsingum skrifstofunnar er hins vegar ekkert til í því að hann hafi þar tengt saman hugsanlega lánveitingu Rússa til Íslendinga og fyrrum herstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.
Örnólfur Thorssonar forsetaritari segir að um reglubundinn hádegisverðafund forseta með erlendum sendiherrum hafi verið að ræða og hann hafi að þessu sinni verið haldinn í danska sendiráðinu í boði sendiherrans. Auk sendiherra hafi fulltrúar sendiskrifstofa Færeyja og Póllands einnig setið fundinn.
„Forsetinn tjáir sig að venju ekki um þær umræður sem fram fóru á fundinum en rétt er þó að taka fram að fréttir erlendra fjölmiðla af fundinum eru ekki nákvæmar. Til dæmis er fjarri lagi að forsetinn hafi þar tengt hugsanlega lánveitingu Rússa til Íslendinga við fyrrum herstöð bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli,” segir í svari Örnólfs við fyrirspurn um málið.