Hundruð fyrirtækja sektuð

Hundruð fyrirtækja verða sektuð þar sem þau hafa ekki skilað …
Hundruð fyrirtækja verða sektuð þar sem þau hafa ekki skilað ársreikningi. Golli

Hundruð fyrirtækja eiga nú von á sekt frá ríkisskattstjóra fyrir að skila ekki ársreikningi fram til ársins 2006. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtæki eru sektuð hér á landi fyrir að skila þeim ekki. Sektin fyrir fyrsta brot nemur 250 þúsund krónum fyrir hvert ár í óskilum. Séu brotin ítrekuð frá því sem nú er getur sektin hækkað í 500 þúsund krónur. Einnig er nú í fyrsta sinn sektað skili fyrirtæki inn ófullkomnum ársreikningi. Þá nemur sektin 150 þúsund krónum.

„Reglugerðin gefur mánaðafrest eftir að bréfið berst fyrirtækjum,“ segir Guðmundur B. Guðbjarnason, forstöðumaður ársreikningaskrár ríkisskattstjóra. Fjölmörg fyrirtæki hafi haft samband til að komast hjá sekt en fresturinn vegna bréfanna nú sé liðinn.

„Hingað hafa forstöðumenn fyrirtækja hringt og sagst ætla að bæta úr. Hafi þau sýnt fram að að málin séu í góðum farvegi, til dæmis hjá endurskoðanda, höfum við veitt aukafrest en svo þrýtur þolinmæðin.“

Eignarhaldsfélagið Fons, sem Pálmi Haraldsson á, hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2007. Fons átti meðal annars flugfélagið Sterling. Hann skilaði þremur ársreikningum til ríkisskattstjóra, 2004, 2005 og 2006 í byrjun júní, endurskoðuðum af Deloitte, eftir umfjöllun 24 stunda. Guðmundur vildi ekki staðfesta að sekta ætti Fons. „Ætli það séu ekki aðrir í verri málum.“

Fram kom í 24 stundum í byrjun júní að fá fyrirtæki að stærðargráðu Fons skili ekki inn ársreikningi. Eitt þeirra er þó B.M. Vallá. Fyrirtækið hefur ekki skilað inn ársreikningi frá árinu 1995 eða eins langt og opinber ársreikningaskrá nær aftur til.

„Það er litið alvarlegum augum þegar stærri félög skila ekki ársreikningi. Mál þeirra eru því þyngri í vöfum en smærri fyrirtækja og verða því að fara fyrir dómstóla. 500 þúsund krónur er ekki nægileg upphæð sé ásetningur fyrir því að skila ekki ársreikningi,“ segir Guðmundur. Það sé því unnið sérstaklega að stærri málum og einstakt að stór félög sinni ekki skyldu sinni.

Fyrirtækjum er gert að skila ársreikningum átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Því er miðað við ágúst. Guðmundur segir að farið sé að reka á eftir skilum hafi fyrirtæki dregið þau þar til eftir að skattskráin er komin út, sem er í október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert