Jón og Gunna heita nú Kári og Sara

Mjög hefur dregið úr notkun gamalgróinna mannanafna. Tískusveiflur í nafngiftum eru áberandi samkvæmt rannsókn Hagstofunnar. Sést það á tíðni nafna milli fæðingarárganga.

Nöfnin Jón og Guðrún, sem um aldir voru langalgengust verða æ fátíðari. Um síðustu áramót báru 2,3 prósent drengja til fjögurra ára aldurs nafnið Jón og einungis 1,5 prósent stúlkna á sama aldri nafnið Guðrún.

Samkvæmt manntalinu 1703 hétu hétu 23,5% allra karla Jón og 19,7% allra kvenna Guðrún. Þrátt fyrir það er Guðrún sjöunda algengasta nafnið meðal yngstu barnanna (0–4 ára) og Jón algengasta drengjanafnið.

Algengasta nafn drengja að fjögurra ára aldri sem bera aðeins eitt nafn er Kári (33), svo Dagur (32) og Alexander (29). Algengustu nöfn stúlkna sem bera aðeins eitt nafn er Sara (33), Freyja (32) og Katla (31).

Á 19. öld heyrði til undantekninga að íslensk börn væru skírð tveimur nöfnum. Nú bera 82% barna á aldrinum 0–4 ára tvö nöfn eða fleiri.

Algengustu tvínefni drengja að fjögurra ára aldri um síðustu áramót voru Sindri Snær (20), Mikael Máni (19) og Andri Snær (18). Meðal stúlkna 0–4 ára eru nöfnin Eva María (29) Anna María (22) og Sara Lind (22) algengust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert