Kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóðs sem er til meðferðar hjá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, verður ekki dregin til baka þar sem ESA þyrfti hvort eð er að ljúka málinu. Þetta kom fram í svari Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar, þingmanns VG, á Alþingi í dag.
Viðskiptabankarnir kærðu Íbúðalánasjóð til ESA vegna stöðu hans á markaði hér á landi. ESA úrskurðaði Íbúðalánasjóði í vil en bankarnir sendu málið áfram til EFTA dómstólsins sem taldi málsmeðferð ESA ábótavant og sendi málið aftur þangað.
Eftir að bankarnir voru ríkisvæddir má segja að íslenska ríkið sé í rauninni að reka mál gegn sjálfu sér. Jón Bjarnason var mjög ósáttur við svör ráðherra og sagði þjóðina eiga heimtingu á því að allt sé gert til að verja Íbúðalánasjóð, þ.m.t. að láta á það reyna að draga kæruna til baka.