Kostnaðurinn 25 milljónir - ekki 50 milljónir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra á blaðamannafundi í dag
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra á blaðamannafundi í dag mbl.is/Ómar

Beinn kostnaður Íslendinga við loftrýmiseftirlit Breta á Íslandi í desember nemur um 25 milljónum króna ekki 50 milljónum  líkt og utanríkisráðherra sagði í gær. Á blaðamannafundi í dag sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að hún hafi farið rangt með þar. „Þetta var mitt misminni."

Ingibjörg Sólrún segir að íslenska ríkið sé búið að gera ákveðið samkomulag við Breta um eftirlit „og auðvitað þarf þá til einhvers að koma ef við riftum því. Við erum áfram samstarfsaðilar í NATO og erum ekki að hætta því," sagði utanríkisráðherra.

Ingibjörg Sólrún segir að í þeim aðgerðum sem boðaðar eru hvað varðar niðurskurð hjá utanríkisþjónustunni eigi að spara 120 milljónir króna í loftrýmisgæslu. Meðal annars verður fækkað um eina af þeim loftrýmiseftirlitsferðum annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins hingað til lands. Jafnframt verður dregið úr kostnaði Íslendinga við þær sem eftir standa. 

Aðspurð um hvort Bretar muni koma hingað til lands í næsta mánuði að annast loftrýmisgæslu segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra að það sé þeirra að taka ákvörðun þar um. Segir hún að Bretum hafi verið gerð grein fyrir áhyggjum hér innanlands af þessu, meðal annars á Alþingi.

„Þeir vita þetta og að við vildum gjarna draga úr kostnaði við þetta. Þetta er hjá þeim til skoðunar núna. En ég hef ekki viljað fara inn í þessa umræðu að við ættum að sýna þeim hvar Davíð keypti ölið með því að segja þeim að koma ekki hingað í desember. Vegna þess að ég hef enga löngun til þess að stigmagna þær deilur sem við eigum í í Bretlandi. Mér finnst alveg nóg komið í því sambandi." 

Hún segist ekki hafa farið leynt með skoðun sína á því hvernig Bretar hafi hagað sér og vísaði þar til hryðjuverkalaganna. Hún segir að sjálfsögðu sé þetta með Icesave reikningana mjög sársaukafullt fyrir þá og það eigi eftir að leysa þau mál og leiða til lykta. Það verði ekki gert nema með samningum. „Þannig að mér finnst ekki mjög skynsamlegt að við sérum að fara fram í einhverju offorsi," sagði Ingibjörg Sólrún á blaðamannafundi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka