Lenti hlaðin sprengiefni á Íslandi

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur.

Rússnesk flugvél lenti á Keflavíkurflugvelli með 27 tonn af sprengiefni í septembermánuði. Íslensk flugmálayfirvöld vissu ekki hvað væri um borð í vélinni fyrr en hún var lent. Meðal þess sem var um borð voru jarðsprengjur en Ísland er meðal þeirra ríkja sem hefur lagt bann við notkun jarðsprengja. Gerðist þetta á sama tíma og varnaræfingin Norður-Víkingur fór fram hér á landi í byrjun september. Æfingin hefur farið fram árlega og er hluti af varnarsamningi við Bandaríkjamenn og viðauka sem gerður var í tengslum við brottflutning hersins héðan.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafði áhöfn vélarinnar samband við flugturn og óskaði eftir lendingarleyfi á Íslandi þar sem vélin væri tæp á eldsneyti. Þegar flugturn óskaði eftir upplýsingum um farm vélarinnar fengust ekki fullnægjandi skýringar og því fór flugturn fram á frekari upplýsingar. Þær voru ekki veittar. Það þótti hins vegar nauðsynlegt að heimila áhöfn vélarinnar að lenda henni hér á landi þar sem vélin var eldsneytislítil.

Vélin var látin lenda á öðru svæði heldur en því þar sem farþegavélar lenda en samkvæmt heimildum mbl.is var það tilviljun að það var gert þar sem vélin var skráð sem fragtvél.

Þegar íslenskir eftirlitsaðilar fóru um borð í vélina kom í ljós að í farmi hennar voru 27 tonn af sprengiefni en vélin var ekki merkt sem herflugvél og hafði ekki skilgreint sig sem slíka þegar óskað var eftir lendingarleyfi, samkvæmt heimildum mbl.is.

Samgönguráðuneytið, sem fer með forræði yfir Keflavíkurflugvelli óskaði ekki eftir því að vélin yrði kyrrsett og fór hún því frá landinu hlaðin sprengiefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka