Mikið fjallað um ummæli forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, með Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, með Geir H. Haarde forsætisráðherra. mbl.isRax

 Mikið er fjallað um hádegisfund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, með erlendum stjórnarerindrekum í norrænum fjölmiðlum í dag. Er jafnvel staðhæft í frétt vefjarins Barentsobserver.com að Ólafur Ragnar hafi sagt að reynist Rússar Íslendingum vinir í raun geti þeim staðið til boða að nota flugvöllinn á Keflavíkurflugvelli.  

Fram kemur í frétt Dagbladet, sem vísað er til á vefnum, að tilboðið hafi komið öllum í opna skjöldu ekki síst fulltrúum Rússa sem hafi sagt að þeir hefðu í raun ekki þörf fyrir afnot af flugvellinum. Tekið er fram að forseti Íslands hafi ekkert ákvörðunarvald varðandi utanríkismál þjóðarinnar.

Ólafur Ragnar er sagður hafa gagnrýnt Dani, Svía og Breta harkalega á fundi með erlendum stjórnarerindrekum í síðustu viku en m.a. er greint frá fundinum á vef danska blaðsins Politiken í dag.

Haft er eftir forsetanum að þessar þjóðir hafa snúið baki við Íslendingum í efnahagsþrengingunum að undanförnu og að Íslendingar verði því að leita sér nýrra vina. Hann mun þó hafa hrósað Færeyingum og Norðmönnum fyrir aðstoð þeirra við Íslendinga og sagt þá einu raunverulegu vini Íslendinga. 

Samkvæmt upplýsingum norsku NTB fréttastofunnar trúðu viðstaddir vart eigin eyrum er forsetinn lét þessi orð falla. „Forsetinn setti fram harða gagnrýni á mörg þeirra landa sem áttu fulltrúa á fundinum, þeirra á meðal Danmörku og Svíþjóð,” segir í minnisblaði fulltrúa Norðmanna á fundinum. „Forsetinn setti fram móðgandi ásakanir á hendur Bretum.”

Haft er eftir Ólafi Ragnari að Norður-Atlantshafssvæðið hafi mikið vægi fyrir Norðurlöndin, Bandaríkin og Bretland en að þar sem ráðamenn í þeim ríkjum virðist nú líta framhjá þeirri staðreynd verði Íslendingar að leita sér nýrra vina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert