Skera þarf hátt í 400 kindur eftir að riða kom upp á bænum Álftagerði í Skagafirði. Að sögn Gísla Péturssonar bónda fékkst niðurstaða um riðusmitið í gær.
„Það er bara núna þegar við fórum að hýsa féð. Það var óvenjulegt hegðunarmynstur á þeim,“ segir Gísli spurður út í það hvenær hann tók fyrst eftir því að ekki væri allt með felldu.
Hann segir að riða hafi síðast komið upp á bænum fyrir um 20 árum. Þá kom upp riða í öðrum bæ í Skagafirði á síðasta ári. „Það virðist ekkert vera hægt að útrýma þessu,“ segir Gísli.
„Fénu verður nú fargað og svo fer ég í það að hreinsa allt út,“ segir hann og bætir við að hann megi ekki taka fé fyrr en eftir tvö ár.
Gísli á eftir að fara nánar yfir stöðuna með yfirdýralækni og héraðsdýralækni.