Ekki hefur verið farið fram á að Gunnar Páll Pálsson formaður VR segi af sér á fjölmennum félagsfundi VR sem stendur yfir á Grand Hóteli, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Margir félagsmenn hafa tekið til máls og tjáð sig um málefni Gunnars Páls Pálssonar formanns og félagsins.
Fjölmiðlum var leyft að vera við setningu fundarins en þeir voru síðan beðnir að yfirgefa fundarsalinn. Gunnar Páll Pálsson formaður VR flutti fyrst ræðu og mun þar hafa gert grein fyrir setu sinni í stjórn Kaupþings. Hann settist í stjórnina árið 2001 til að standa vörð um eign lífeyrissjóðanna í bankanum.
Gunnar Páll mun m.a. hafa fjallað sérstaklega um þá ákvörðun stjórnar bankans 25. september að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna hlutabréfakaupa og samþykki sitt við því.
Einnig minnti hann á störf sín fyrir VR um árabil. Hann hefur verið formaður félagsins í sex ár.