Allur lífeyrir verði séreign

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/SteinarH

Afnema ætti skyldugreiðslu launþega í lífeyrissjóði og þess í stað ættu launþegar að greiða allan sinn lífeyri í séreign sem er eyrnamerktur hverjum launþega fyrir sig. Þetta er mat Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur segir á heimasíðu félagsins að nú liggi fyrir að lífeyrissjóðir vítt og breitt um landið hafi tapað tugum ef ekki hundruðum milljarða vegna hruns bankakerfisins. Ljóst sé að einhverjir lífeyrissjóðir muni þurfa að grípa til skerðingar á lífeyri til sinna sjóðsfélaga.

Vilhjálmur segist oft hafa velt því fyrir sér hvers vegna atvinnurekendur eigi fulltrúa inni í stjórnum lífeyrissjóðanna, hvað þeir séu að véla með lífeyri verkafólks.

Hann bendir á að samkvæmt allflestum kjarasamningum greiði launþegar 4% af sínum launum í lífeyrissjóði og fái 8% mótframlag frá sínum atvinnurekanda. Það séu kjarasamningsbundin réttindi launþega og algerlega óeðlilegt að atvinnurekendur séu að hafa áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna.

Þá telur Vilhjálmur að hagsmunaárekstrar hjá fulltrúum atvinnurekenda geti klárlega komið upp þegar stjórnir lífeyrissjóða eru að velta fyrir sér hlutabréfakaupum í íslenskum fyrirtækjum, m.a. vegna krosstengsla.

„Það er bjargföst skoðun formanns félagsins að atvinnurekendur eiga ekkert með sitja í stjórnum lífeyrissjóða enda er þetta ekki þeirra lífeyrir sem þeir eru að véla með.  Fróðlegt væri að vita hvort fulltrúar atvinnurekenda greiði af sínum launum í þann lífeyrissjóð sem þeir gegna stjórnarmennsku í,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

Hann vill að Alþingi endurskoði lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, í ljósi þess að sjóðirnir eru nú að tapa gríðarlegum upphæðum vegna þess ástands sem nú ríkir. Réttast væri að breyta lögunum með þeim hætti að afnema skyldugreiðslu launþega í lífeyrissjóði. Þess í stað greiddu launþegar allan sinn lífeyri í séreign sem yriði eyrnamerktur hverjum launþega fyrir sig.

„Formaður gerir sér grein fyrir að þetta eru róttækar breytingar og að mörgu verði að hyggja í þessu sambandi. Það er hins vegar mat formanns að það sé vel hægt að breyta lögunum þannig að þetta sé framkvæmanlegt því það er með öllu óþolandi fyrir launþega að horfa uppá lífeyrissparnað sinn skerðast með þeim hætti sem nú blasir við sjóðsfélögum vítt og breitt um landið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert