Samþykkt var á reglulegum samráðsfundi fjármálaráðherra Evrópusambandsins með ráðherrum EFTA-ríkja að leysa deilur um erlendar innistæður íslensku bankanna með því að stofna fimm manna gerðardóm. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fundur fjármálaráðherranna var haldinn í Brussel 4. nóvember. Tveimur dögum síðar sagði Ísland sig frá gerðardóminum, segir Árni Mathiesen fjármálaráðherra. Hann segir að fulltrúar ESB hafi óskað eftir því að trúnaður ríkti um gerðardóminn, og því hafi hann ekki greint frá tilvist hans.
Eftir að Fréttablaðið fékk staðfestingu á efni fundarins taldi Árni rétt að skýra sín sjónarmið í málinu. Árni segir að eftir að fjármálaráðherrarnir hafi komið sér saman um gerðardóminn hafi embættismenn ESB tekið við málinu. Þeir hafi hins vegar verið algerlega andsnúnir því að niðurstaða gerðardómsins yrði bindandi, og breytt verkefninu í óformlegt lögfræðiálit. Þeir hafi að auki viljað víkka út umfjöllunarefni dómsins, og fjalla um aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar í fjármálakreppunni, þar á meðal neyðarlög sem ríkisstjórnin setti. Engin leið var að sætta sig við það, segir Árni.