Dómur vegna kynferðisbrots ómerktur og vísað heim í hérað

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir manni, sem dæmdur var í árs fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og nauðgun gegn fyrrverandi unnustu sinni. Hæstiréttur vísar málinu aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að þeir ágallar hafi verið á málinu að hinn ákærði  var ekki inntur eftir því fyrir héraðsdómi hver afstaða hans hefði verið til nánar tiltekinna þátta sakarefnisins. Að öllu virtu var talið að slíkir annmarkar væru á meðferð málsins í héraði og hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt væri að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til frekari skýrslutöku af ákærða, munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Með ákæru ríkissaksóknara á síðasta ári var manninum gefið að sök frelsissvipting, líkamsárás og nauðgun á unnustu sinni á þeim tíma með því að hafa farið að næturlagi inn í íbúð þar sem hún var gestkomandi, togað hana þaðan út í bifreið. Ekið með hana á brott og síðan dregið hana út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama.

Síðan hafi hann sett stúlkuna aftur inn í bifreiðina, ekið að heimili hennar og dregið hana á hárinu út úr bifreiðinni eftir möl og gangstétt og upp stiga inn í íbúð hennar á 2. hæð hússins. Farið með hana inn á salerni og lokað hurðinni. Þar hafi hann veist að henni með ofbeldi, afklætt hana, sett fingur upp í kynfæri hennar og við það að nokkru notfært sér að hún gæti ekki spornað við verknaðinum vegna ölvunar.

Slegið  hana ítrekað í andlit og líkama, meðal annars hnefahöggi í andlitið, sem hafi valdið því að höfuð hennar hafi skollið utan í vegg. Hafi hún hlotið af þessu öllu glóðarauga og mar, rispur og bólgur í andlit, mar á enni og höfði, eymsli í hársverði og skrámur og mar víða um líkamann.

Segir í dómi Hæstaréttar að ekki verði séð að maðurinn hafi verið inntur nægjanlega í héraðsdómi um ýmis atriði ákærunnar og því séu slíkir  annmarkar á meðferð málsins í héraði og hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa því heim í hérað til frekari skýrslutöku af ákærða, munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert