Enginn góður kostur í stöðunni

„Það er enginn góður kostur í þessari stöðu þannig að við þurfum að velja leið sem lágmarkar tjónið fyrir okkur,“ segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um þrýstinginn á að Icesave-deilan verði leyst áður en Ísland fær lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. 

Geir sagði við mbl.is, að ekki sé komin niðurstaða varðandi hvort til greina komi að gangast í ábyrgð fyrir Icesave-reikningana gegn láni frá Bretum. „Það þurfa auðvitað allir að slaka á einhverju þegar verið er að reyna að ná sáttum,“ segir Geir og telur ljóst að verið sé að beita Ísland miklum þrýstingi.

Íslensk stjórnvöld hafa viljað skjóta málinu fyrir gerðardóm en Bretar og Hollendingar hafa hafnað því. „Ég vil kannski ekki segja að það sé fullreynt. Auðvitað er það siðaðra manna háttur þar sem uppi eru deilumál að skjóta þeim með einhverjum hætti til dóms eða gerðardóms þannig að það fáist einhver óvilhöll niðurstaða,“ segir Geir og bendir einnig á að Norðurlöndin hafi skipað sér í hóp með öðrum ESB-þjóðum. Öll spjót standi því á Íslandi að klára þetta mál. Líklega muni greiðast hratt úr hlutunum þegar „búið er að taka ákveðna tappa úr.“

Á meðan málið sé í stíflu gangi erfiðlega að sinna öðrum verkefnum, s.s. fjárlagavinnu. „Hún er núna í biðstöðu. Það er verið að bíða eftir nýrri tekjuspá,“ útskýrir Geir. „Þannig að það er mjög brýnt að hrinda þessum hindrunum úr vegi sem enn eru til staðar,“segir Geir H. Haarde. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka