Hæstiréttur hefur dæmt BYKO til að greiða konu, sem er fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins, tæpar 5,6 milljónir króna með vöxtum vegna slyss, sem hann varð fyrir við vinnu sína hjá fyrirtækinu.
Slysið varð árið 2004 þegar konan var 17 ára. Hún var óvinnufær í 10 daga eftir slysið en hún varð fyrir meiðslum á baki, hægri hendi og vinstri fæti. Þá er varanleg örorka hennar metin 15%.
Tildrög slyssins voru þau að konan og önnur stúlka fluttu þungt vörubretti á hjólatrillu. Til að forða því að trillan lenti á viðskiptavini urðu þær breyta akstursstefnu trillunnar með þeim afleiðingum að konan klemmdist.
Hæstiréttur segir, að óumdeilt sé að þungi varningsins á vörubrettinu sem konanflutti með trillunni milli staða í verslun BYKO, hefði verið u.þ.b. 1,6 tonn. Vitni báru að stúlkurnar hefðu áður flutt farm á milli staða í versluninni á trillunni. Stúlkurnar sögðu þó báðar fyrir dómi að ekki hefði fyrr verið um svo þungan farm að ræða.
Dómurinn taldi sannað, með framburði konunnar og samstarfsfólks hennar, að þær hefðu ekki fengið leiðbeiningar um það hvernig þær hefðu átt að bera sig að við flutninginn. Fallist var á með konunni að verkið hefði verið ofvaxið líkamlegu atgervi hennar. Ekki var hins vegar talið sannað að konurnar hefðu sýnt af sér gáleysi með því að fara of hratt yfir með trilluna og því var ekki talið efni til að lækka bætur til konunnar vegna eigin sakar.