Fangelsi fyrir samræði við 12 ára stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvítugan karlmann í 15 mánaða fangelsi, þar af 12 mánuði skilorðsbundið, fyrir að hafa samræði við 12 ára gamla stúlku. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúkunni 400 þúsund krónur í bætur.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn og stúlkan kynntust á netinu á síðasta ári og hittust tvívegis í kjölfarið. Í síðara skiptið bauð maðurinn stúlkunni heim til sín og þar höfðu þau kynmök.

Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa haft samræði við stúlkuna en sagðist hafa staðið í þeirri trú að stúlkan væri 14 ára og jafnframt að slíkt samræði væri ekki refsivert nema við börn yngri en 14 ára. Hefði hann ekki komist að hinu sanna um þetta fyrr en lögreglumennirnir sem handtóku hann sögðu honum frá því að lögin miðuðu í þessu tilliti við 15 ára aldursmark.

Dómurinn taldi hins vegar sannað, að maðurinn hefði vitað um réttan aldur stúlkunnar. Var maðurinn dæmdur í 15 mánaða fangelsi en í ljósi ungs aldurs hans og að hann hefur ekki gerst sekur um refsiverð afbrot áður var hluti dómsins skilorðsbundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert