Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og rithöfundur, hefur verið ráðinn ritstjóri vefmiðilsins Eyjunnar, að því er fram kemur á Eyjunni. Guðmundur tekur við af Hallgrími Thorsteinssyni sem hefur sinnt fréttaskrifum á Eyjunni í rúmt ár og tók við ritstjórnarkeflinu af Pétri Gunnarssyni, upphaflegum ritstjóra í júlí. Fram kemur á Eyjunni að Hallgrímur muni halda áfram bloggi sínu á Eyjunni meðfram öðrum störfum.
Í frétt Eyjunnar um ritstjóraskiptin kemur fram að lesendum Eyjunnar hafi fjölgað gífurlega á undanförnum vikum. Notendur vefsins hafi verið orðnir rúmlega 60 þúsund í vikunni sem leið.
„Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú á þessum örlagatímum að hér séu starfandi frjálsir fjölmiðlar, óháðir stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, stórfyrirtækjum og auðmönnum“, er haft eftir Guðmundur Magnússon á Eyjunni. „Netið gegnir lykilhlutverki við miðlun frétta og skoðana í þjóðfélaginu. Sjálfstæð vefrit eins og Eyjan tryggja að upplýsingar berast almenningi úr öllum áttum.“
Jón Garðar Hreiðarsson framkvæmdastjóri Eyjunnar segir að stefnt sé að því að halda áfram að efla vefritið eftir því sem kostur er og svara þannig hinni miklu þörf í þjóðfélaginu fyrir kraftmikinn og óháðan vettvang fréttamiðlunar og skoðanaskipta.
Guðmundur er menntaður í sagnfræði og heimspeki við Háskóla Íslands og London School of Economics. Hann hefur langa reynslu af blaðamennsku og ritstörfum. Nýjasta bók hans er Nýja Ísland - listin að týna sjálfum sér og fjallar um þjóðfélagslegar breytingar á Íslandi á síðustu árum.