Dominique Strauss-Khan, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, (IMF) segir í samtali við kínverska fjármálatímaritið Caijing, að sjóðurinn hafi gert þær kröfur til Íslendinga, Ungverja og Úkraínumanna að þeir geri breytingar á efnahagsstefnu sinni samhliða lánafyrirgreiðslu frá sjóðnum.
Strauss-Kahn leggur áherslu að lánveitingar til þessara þriggja ríkja auk Pakistans falli ekki undir sérstaka skammtímafyrirgreiðslu, sem IMF gerir nú ráð fyrir að veita vegna fjármálakreppunnar. Slík fyrirgreiðsla geri ekki ráð fyrir að ríki þurfi að breyta um stefnu.
„Varðandi Ungverjaland, Úkraínu og Ísland, og nú Pakistan, förum við fram á að stefnubreytingu til að mæta kreppunni. Það er ef til vill hefðbundna aðferðin en það sem er frábrugðið nú er að áætlunin beinist að vandamálinu," segir Strauss-Kahn við Caijing en viðtalið er birt í enskri þýðingu á heimasíðu IMF.
Hann segir, að svonefnd nýmarkaðsríki verði að læra af kreppunni. „Það er skiljanlegt, að nýmarkaðsríki reyni að afla fjármagns en þau þurfa að miða það fjármagn við stærð hagkerfisins. Þá er einnig ljóst að fjármálakerfið má ekki stækka ótakmarkað. Tökum Ísland sem dæmi, þar sem bankarnir þróuðust þannig að heildareignir í bankakerfinu íslenska voru 12 sinnum hærri en landsframleiðslan. Augljóslega getur það ekki gengið. Og þess vegna þarf að koma á fleiri alþjóðlegum reglum til að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst á ný,“ segir Strauss-Kahn.