Skilanefnd Kaupþings banka hefur óskað eftir því að bankinn verði tekinn af markaði Kauphallar Íslands.
Beiðnin er grundvölluð á bréfi frá fyrri stjórn bankans þann 8. október þar sem hún segir af sér og afsalar völdum sínum til Fjármálaeftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu skilanefndar bankans.
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að Kaupþing banki hafi ekki enn verið afskráður þar sem hann og starfsmenn hennar hafi áreiðanlegar heimildir fyrir því að enn séu viðskipti með bréf í bankanum. Þau séu ekki í gegnum Kauphöllina, því það væri ekki leyfilegt. Þau séu á milli aðila á markaði. Viðskiptin í gegnum Kauphöllina hafi verið stöðvuð þegar ríkið tók bankana yfir.
Hann segir að vegna viðskiptanna sé mál Kaupþings flóknara en hinna bankanna, sem hafi verið skráðir af markaði.
Þórður segir að lögum samkvæmt beri Kauphöllinni að meta hvenær rétt sé að afskrá fyrirtæki. Nú bíði þeir á meðan málið sé í vinnslu.
„Við höfum ekki upplýsingar um umfangið heldur aðeins að viðskiptin hafi átt sér stað. Það kann að vera vegna vona um að einhver niðurstaða fáist út úr lögssökn á hendur Bretum. Ástæðurnar kunna einnig að vera aðrar, til dæmis að verið sé að ljúka framvirkum samningum með bréf í Kaupþingi," svarar Þórður spurður um hugsanlegar ástæður þess að menn kaupi nú í gjaldþrota banka. Kaupin hafi komið þeim á óvart.