Fjármagn til kaupa Nýrrar sýnar á fjölmiðlum 365 kom ekki frá íslenskum viðskiptabönkum segir Jón Ásgeir Jóhannesson í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér fyrir stundu. Hann segir rannsókn Ágústs Ólafs Ágústssonar á viðskiptunum furðulega og spyr hvar þingmaðurinn ætli að draga mörkin.
„Maður kemur fram opinberlega og segist ætla að brjóta á rétti annars manns. Sá seinni segir: Ef þú brýtur á rétti mínum mun ég kæra þig. Sá fyrri kallar það ósvífnar og forkastanlegar hótanir,“ þetta eru upphafsorð yfirlýsingar Jóns Ásgeirs en hnútur hafa gengið milli hans og lögmanna hans annars vegar og Ágústs Ólafs Ágústssonar, formanns viðskiptanefndar Alþingis hinsvegar.
Jón Ásgeir segir eðlilegt að margvíslegar tilfinningar ráði för fólks þessa dagana en gera verði þá kröfu til þingmanns, nefndarformanns á Alþingi og varaformanns stærsta stjórnmálaflokks landsins byggi málflutning sin á rökum og fari að lögum. Jón Ásgeir vísar þar til yfirlýsinga Ágústs Ólafs um að hann muni kalla bankastjóra nýju ríkisbankanna á sinn fund og spyrja um meintar lánveitingar til Nýrrar sýnar ehf. vegna kaupa Jóns Ásgeirs á 365 miðlum hf.
„Með því krefst hann brota á lögum um bankaleynd og sú krafa fær aukið vægi í ljósi þess að ríkið er eigandi viðskiptabankanna. Þetta er grafalvarlegt mál og það dugar þingmanninum ekki að skjóta sér á bak við annars ágæt tilmæli Samkeppniseftirlitsins, sem komu fram þremur dögum eftir að hann lofaði lögbrotunum. Hvar ætlar þingmaðurinn draga mörkin í þessari furðulegu rannsókn sinni? Verða bankaviðskipti fleiri einkafyrirtækja, eða jafnvel einstaklinga, að umfjöllunarefni hjá Alþingi? Eða er sjálfsagt að brjóta á rétti sumra fyrirtækja vegna eignarhalds þeirra og almennrar stemmningar í samfélaginu?,“ spyr Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir reifar stöðu fjölmiðla í yfirlýsingunni og segir að RÚV hafi yfirburðastöðu á markaðnum, enda dæli ríkið 3000 milljónum í RÚV sem þó keppi við einkarekna fjölmiðla.
„Morgunblaðið er sagt í miklum rekstarvanda. Skjár Einn hefur sagt upp öllu starfsfólki og hverfur kannski af sjónarsviðinu á næstunni. Viðskiptablaðið er í greiðslustöðvun og 365, með Fréttablaðið og Stöð 2 innanborðs, hefði farið í þrot fyrir viku síðan ef ekkert hefði verið aðhafst, “ segir Jón ásegir og bætir við að það eina sem fyrir sér hafi vakað með kaupum á fjölmiðlum 365 hafi verið að forða 365 frá að lenda í gjaldþroti.
„Ég hef margoft lýst yfir að öllum núverandi hluthöfum 365 gefst kostur á að kaupa sambærilega eignarhluti í Nýrri sýn ehf. Eignarhald á umræddum fjölmiðlum mun því ekki breytast nema einhverjir núverandi hluthafar 365 kjósi að taka ekki þátt í hlutafjáraukningunni. Fari svo að núverandi hluthafar nýti ekki forkaupsrétt sinn, verða nýir hluthafar fengnir að félaginu og þannig tryggt að eignarhaldið verði áfram dreift,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson.