Munu Íslendingar axla ábyrgð

Skúli Thoroddsen
Skúli Thoroddsen mbl.is/Hafþór

Það að enn hafi ekki náðst samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), bendir til þess að ríkisstjórnin sé tvístígandi í afstöðu sinni. Málið snýst því ekki um hótanir Breta og Hollendinga, eða afstöðu Norðurlandaþjóða, heldur það hvort Íslendingar ætla að axla ábyrgð eða ekki. Það er undir okkur komið. Viljum við það ekki, mun lítið verða eftir af því trausti sem enn lafir og lítil von í samhjálp frá hinu alþjóðlega samfélagi. Lánsumsókn Íslands hjá IMF, liggur óhreyfð þar til séð verður hvert stefnir, skrifar Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins á vef samtakanna. <p>

„Það mun hafa verið seðlabankastjóri sem fyrstur varpaði fram þeirri kenningu að Íslendingum bæri engin skylda til að gangast í ábyrgð vegna innlánsreikninga íslensku bankanna í útlöndum. Það kallaði á reiði Breta. Neyðarlögin staðfestu svo að innistæður á Íslandi væru bara tryggðar og Bretar ærðust. Það sem hér skiptir máli að gera sér grein fyrir, að ekki má mismuna fólki eftir þjóðerni og gildir þá einu hvort útibú bankanna er á Íslandi, Lundúnum eða Amsterdam. Jafnt skal yfir alla ganga, það er sú lögfræði sem gildir, þótt málið snúist reyndar frekar um siðfræði milliríkjaviðskipta og traust. Það er sá vandi sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir.

Annað hvort að taka á sig skuldbindingar gagnavart sparifjáreigendum í útlöndum, axla ábyrgðina af auðmýkt eða berjast áfram með lögfræðina að vopni, hrokann og drambið og borga ekki. 

Samkvæmt óstaðfestum fregnum virðast íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að reyna til þrautar að ná samningum við Bretland og Holland á næstu dögum um hvernig íslenska ríkið muni bæta eigendum innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans skaðann sem við þeim blasir. Þetta er reyndar eina leiðin til að fá lánafyrirgreiðslu frá IMF og öðrum ríkjum, sem er brýnasta verkefni dagsins í dag," skrifar Skúli.  

 En höfum við efni á að axla ábyrgð á innstæðunum í útlöndum?, spyr Skúli í pistli sínum.

„Nei, það höfum við ekki. Fjárhagsbagginn mun þýða landflótta, hrun og áratuga fátækt hér á landi ef við berum hann ein. Við verðum þess vegna að leita aðstoðar og semja okkur út úr vandanum, viðurkenna hin pólitísku mistök undanfarinna ára og mæta örlögum okkar af auðmýkt. Við viljum borga en getum það ekki nema með aðstoð alþjóðasamfélagsins til lengri tíma. Við þurfum neyðaraðstoð og hjálp eru þau skilaboð sem utanríkisráðherra verður að koma á framfæri í útlöndum. Því lengur sem það dregst, mun reiði almennings á Íslandi og í útlöndum magnast. Fólk vill vita hvert stefnir. Við þurfum stefnumörkun og við köllum eftir ábyrgð.

Að þjóðin sé komin á vonarvöl vegna pólitískra mistaka er staðreynd. Traustið á Seðlabankann er löngu horfið og þeir aðrir sem bera ábyrgð á vandanum eru þær eftirlitsstofnanir sem brugðust, fjármáleftirlitið og bankamálaráðuneytið. Það er því eðlilegt að forseti ASÍ kalli eftir ábyrgð fjármála- og bankamálaráðherra, sem brugðust embættisskyldu sinni. Undir það má taka. Þeir áttu eða a.m.k. máttu vita, að útrás bankanna gat endað með ósköpum. Þótt engan hafi grunað að afleiðingarnar yrðu jafn skelfilegar og raun bar vitni, er hin pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð mikil og óumflýjanleg. Hana verða menn að axla. Ekki má heldur gleyma ábyrgð þeirra sem að útrásinni stóðu og mökuðu krókinn á kostnað almennings. Þeirra skuldadagar hljóta og verða að koma," að því er fram kemur á vef Starfsgreinasambandsins.

Vefur Starfsgreinasambandsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert