Samningar um Icesave eina leiðin

Retuers

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að reyna til þrautar að ná samningum við Bretland og Holland á næstu dögum um hvernig íslenska ríkið muni bæta eigendum innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans skaðann sem þeir urðu fyrir er bankinn fór í þrot. Mat forystumanna ríkisstjórnarinnar er að eina leiðin til að fá lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og öðrum ríkjum sé að ljúka þessum samningum fyrst.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa íslensk stjórnvöld verið undir miklum þrýstingi frá aðildarríkjum og stofnunum Evrópusambandsins að ná samningum. Því hefur verið komið á framfæri að það sé sameiginleg afstaða allra ESB-ríkjanna 27 að leggjast gegn því að Ísland fái aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema fyrst verði samið um Icesave-skuldirnar.

ESB-ríkin eru ósammála lögfræðilegum rökum Íslands í málinu og segja þetta pólitíska afstöðu. Hún er rökstudd þannig að ljúka verði málinu á þann veg að enginn minnsti vafi sé um gildi tilskipunar ESB, sem gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, um gagnkvæmar innistæðutryggingar. Ef óheppilegt fordæmi væri gefið með því að gefa eftir í samningum við Ísland kæmist allt í uppnám á evrópskum bankamarkaði við núverandi aðstæður og innistæðueigendur hættu að treysta bönkum með starfsemi í öðru landi en heimalandinu.

Heimildir Morgunblaðsins herma að m.a. fulltrúar allra norrænu ríkjanna hafi komið því á framfæri að ekki þýði að ræða um lánafyrirgreiðslu frá þeim nema fyrst verði gengið frá Icesave-málinu. Hins vegar mun líka hafa verið gefið í skyn af hálfu ESB, að viðurkenni Ísland á annað borð kröfur Breta og Hollendinga muni aðildarríkin hlutast til um að skilmálar verði með þeim hætti að skuldsetning og endurgreiðslubyrði verði ekki of íþyngjandi fyrir Ísland.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka