„Við hvöttum til þess að við uppfylltum markmið Sameinuðu þjóðanna eins og nágrannaþjóðir okkar, á meðan við vorum þjóð meðal þjóða,“ segir Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynnti í gær sparnaðaraðgerðir sem fela m.a. í sér að útgjöld til þróunarsamvinnu munu dragast saman í 0,24% af þjóðarframleiðslu en í fjárlagafrumvarpi var gert ráð fyrir að þau yrðu 0,35% á næsta ári. Viðmið Sameinuðu þjóðanna er að hlutfallið sé 0,7%.
„Nú eru aðstæður auðvitað aðrar,“ segir Guðrún. „Ef efnahagurinn er kominn í þrot er skiljanlegt að þarna sé dregið saman eins og á öðrum sviðum.“
Jacques Diouf, yfirmaður Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), hvatti á dögunum ríkisstjórnir heims til þess að skerða ekki aðstoð við þróunarríki eða grípa til verndartolla í fjármálakreppunni. Hann varaði við því að þetta gæti haft í för með sér að matvælaskortur yrði líka á næsta ári.