Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi og bankaráðsformaður Landsbankans, sagði í Kastljósi RÚV í kvöld að það væri misskilningur að skuldir vegna Ice Save reikninga bankans lentu á íslensku þjóðinni. Eignir bankans hefðu allt til síðasta dags verið mun meiri en skuldirnar. Hann sagði að 30. september hefðu eignir bankans verið helmingi hærri en innlánsreikningar Ice Save þannig að jafnvel þótt eignir bankans hefðu rýrnað um helming hefði verið hægt að greiða út Ice Save innlánin.
Björgólfur sagði í samtali við Sigmar Guðmundsson að Landbankinn hefði ekki orðið gjaldþrota. Hann hefði hins vegar komist í greiðsluþrot vegna þess að Seðlabanki Íslands hefði ekki getað útvegað honum gjaldeyri.
Deilan lagasetningunni að kenna
Hann sagði að ekki væri að hægt að kenna Ice Save um deiluna sem komin er upp við Breta og Hollendinga heldur væri hún tilkomin vegna lagasetningar íslenskra stjórnvalda þess efnis að þau ætluðu tryggja innistæður sumra viðskiptavina en ekki allra; einungis þeirra sem ættu fé á reikningum hér heima en ekki erlendis. „Það er eins og við segðum að Reykvíkingar fengju sitt en Norðfirðingar ekki,“ sagði Björgólfur. „Deilan snýst um þetta; lagasetninguna sjálfa.“
Björgólfur nefndi að það væri eins og menn héldu að bankinn hefði stofnað Ice Save á bak við allt og alla en svo hafi vitaskuld ekki verið. „Ég held að fáir atvinnuvegir séu undir jafn miklu eftirliti og fjármálalífið. Við lögðum fram okkar plön og vorum í góðu samstarfi við fjármálaeftirlitið í Bretlandi og á Íslandi.“
Vildu fjölga stoðunum
Björgólfur sagði að íslenskir bankar hefðu verið orðnir stórir og hefðu kannski spilað djarft. En stefna ríkisstjórnarinnar og fleiri hefði verið að koma fleiri stoðum undir atvinnulífið og fjármálakerfið verið eitt af því sem mest var talið um í því sambandi. „Við reyndum að standa okkur en vorum kannski full stórir og hefðum átt að fara með hluta starfseminnar erlendis. En það var í góðri trú sem við unnum svona.“
Fengust aldrei til viðræðna
Sigmar spurði Björgólf um tilboð Landsbankamanna um sameiningu bankans, Glitnis og Straums, helgina áður en ríkið tók yfir Glitni; sagði að skv. því hefði hlutur eigenda Glitnis átt að verða rýr og spurði hvort tilboðið hefði verið sanngjarnt. Björgólfur svaraði því til að Landsbankinn hefði reyndar verið með hugmyndir frá því í vor um að sameina tvo eða þrjá banka, en umrædda helgi lagt fram tilboð sem Landsbankamenn hefðu talið sanngjarnt. Hann sagði þá hafa gert sér grein fyrir því að ef ríkið tæki yfir Glitni myndi það „kyrkja“ alla bankastarfsemi á Íslandi enda hefðu allar lánalínur lokast um leið; hvorki bönkunum né ríkinu hefði verið treyst lengur.
Björgólfur bætti því við að hugmyndum Landsbankamanna hefði aldrei verið svarað. Hann sagði að þegar sendar væru slíkar tillögur ættu menn að tala saman en þeir hafðu aldrei fengið svar. „Þeir sem áttu að vernda hagsmuni þjóðarinnar fengust aldrei til viðræðna.“
Yfirlýsing Davíðs einsdæmi í heiminum
Davíð Oddsson sagði í Kastljósviðtali fyrir nokkrum vikum að Íslendingar myndu ekki greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum. Þegar Sigmar spurði hvort Björgólfur hefði tekið orð Davíðs til sín - að hann væri óreiðumaður - svaraði hann neitandi. Hann sagði að eitt af því sem hefði gert málið erfitt væri yfirlýsingar manna sem hefðu ekki að átt að gefa yfirlýsingar. „Þessi yfirlýsing er líklega einsdæmi í heiminum,“ sagði Björgólfur Guðmundsson - og bætti við að hann vissi ekki við hvern Davíð hefði átt; kannski félaga sína í Seðlabankanum, í ríkisstjórninni eða annars staðar í kerfinu.