SkjárEinn mun einungis sýna stillimynd í kvöld frá kl. 17.00. Þar eru áhorfendur hvattir til að skrifa undir áskorun til menntamálaráðherra og ríkisstjórnar Íslands um að leiðrétta ójafnt samkeppnisumhverfi einkarekinna sjónvarpsstöðva. Þessi breyting á dagskránni er aðeins gerð í dag. Í fréttatilkynningu frá sjónvarpsstöðinni segir m.a.:
„„Við viljum vekja athygli á því að einkareknar sjónvarpsstöðvar geta ekki þrifist í ójafnri samkeppni við RÚV í efniskaupum og á auglýsingamarkaði og það er á ábyrgð okkar að koma fólki í skilning um hvað bíður þess ef ekki verða teknar réttar ákvarðanir í þessum efnum. Það er engin tilviljun að við völdum fimmtudag til að fylgja þessum málstað okkar eftir," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjásins ehf.
Um 40 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til menntamálaráðherra og ríkisstjórnar Íslands á skjárinn.is. „Þátttakan endurspeglar skýra kröfu íslenskra sjónvarpsáhorfenda um að vita hvað sé framundan í málefnum einkarekinna sjónvarpsstöðva hér á landi," segir Sigríður Margrét.
Skjárinn sér um rekstur auglýsingasjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins. Skjárinn sér einnig um rekstur SkjásBíós, sem er vídeóleiga heima í stofu og SkjásHeims sem veitir áskrift að yfir 60 erlendum sjónvarpsstöðvum.“