Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akranesi samþykkti ályktun í dag þar sem hún segir óhjákvæmilegt að leita eftir viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stjórn fulltrúaráðsins telur einnig óhjákvæmilegt að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki.
Í ályktun stjórnar fulltrúaráðsins á Akranesi segir að það skori á Geir H. Haarde forstætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins að skerpa nú þegar áherslur ríkisstjórnar Íslands við það mikla verkefni sem stjórnin stendur andspænis við endurreisn fjármálakerfis landsins. Forgangsverkefnið sé að slá skjaldborg um fjárhagslega framtíð heimilanna í landinu.
„Jafnframt telur stjórnin óhjákvæmilegt að nú þegar verði leitað eftir aðildarviðræðum að Evrópusambandið þannig að í ljós komi hvaða kostum þjóðin standi frammi fyrir ef til aðildar kemur.
Þá skorar stjórnin á formann Sjálfstæðisflokksins að sjá til þess að við endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar veljist einungis til starfa þeir sem njóta óskoraðs trausts og hæfis til starfa. Óhjákvæmilegt sé í því ljósi að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki nú þegar.
Stjórn fulltrúaráðsins telur að sá vandi sem íslenskir stjórnmálamenn standa nú frammi fyrir muni leiða í ljós styrk þeirrar stefnu sem þeir standa fyrir. Það er bjargföst trú stjórnarinnar að á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum, verði vandamál þjóðarinnar best leyst nú sem áður.“