Varðar allt fjármálakerfi Evrópu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra gerir sér vonir um að niðurstaða í IceSave deilunni geti legið fyrir í dag eða á morgun, að því er fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að íslensk stjórnvöld hafi frest til miðnættis í kvöld að leysa deiluna. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar mun lausn vera í burðarliðnum. Breska ríkið muni reiða fram jafnvirði um 600 milljarða króna til að borga innistæðueigendum hjá IceSave tryggingu upp á rúmar 20 þúsund evrur hverjum. Íslenska ríkið ábyrgist að endurgreiða upphæðina og fær eignir Landsbankans í Bretlandi. Talið er að sala þeirra nægi langleiðina fyrir láninu frá Bretum. Skellurinn á íslenska skattborgara verði því minni en menn hafa óttast.

Ingibjörg taldi í samtali við RÚV að íslensk stjórnvöld hafi fengið mjög skýr skilaboð um að mjög mikilvægt sé að ljúka deilunni við Breta og Hollendinga um IceSave. Það skipti miklu máli fyrir allt fjármálakerfið í Evrópu. Í Evrópusambandinu sé litið svo á að það sé í húfi ef ekki tekst að ljúka málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka