Félagsfundur VR, sem haldinn var á Grand Hóteli í kvöld, samþykkti tillögu sem Gunnar Páll Pálsson formaður bar upp. Hún var þess efnis að trúnaðarráð verði kallað saman innan tveggja vikna og að í kjölfarið verði stjórnarkjöri flýtt.
Gunnar Páll sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að verði gengið til kosninga þá gætu þær orðið í janúar næstkomandi. Hann var kosinn formaður á liðnu vori til tveggja ára en Gunnar Páll sagði að þá verði einnig kosið um formann. Aðalfundur félagsins gæti síðan orðið í mars næstkomandi. En var fundurinn erfiður?
„Hann var að minnsta kosti fjörugur og margir sem tóku til máls enda stóð fundurinn í tvo og hálfan tíma,“ sagði Gunnar Páll.
Fundurinn samþykkti einnig tillögu þess efnis að hafin verði vinna við reglur um setu fulltrúa VR í stjórnum og siðareglur þeirra.