„Það er alveg ljóst að þegar við gerum upp málið með óháðri rannsóknarnefnd, þá má ekki búa þannig um hnútana að bankaleynd komi í veg fyrir að eðlilegir hlutir komi fram í dagsljósið, “ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Hann vísar til rannsóknar á aðdraganda að hruni íslenska bankakerfisins en frumvarp um sérstaka rannsóknarnefnd er væntanlegt á allra næstu dögum.
„Ef rannsóknarnefndin á að skila sínu verki þá þarf að afnema bankaleynd í mörgum tilvikum. Það segir sig sjálft ef menn ætla að varpa ljósi á aðdraganda hrunsins þá verðum við að huga mjög vel að afnámi bankaleyndar. Það þarf þá lagabreytingu til,“ segir Ágúst Ólafur og telur að slíkt ákvæði verði að vera í frumvarpi um rannsóknarnefndina.
„Nefndin verður að fá víðtækar heimildir. Það vill enginn fela neitt og ef við ætlum að hefja endurreisnarstarfið þá gerum við það ekki meðan hér ríkir tortryggni og efasemdir í samfélaginu,“ segir formaður viðskiptanefndar Alþingis.