Skilanefnd Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga bíður nú eftir upplýsingum frá stjórn Giftar fjárfestingarfélags, sem stofnað var utan um skuldbindingar eignarhaldsfélagsins á sumarmánuðum í fyrra, til þess að hægt sé að meta hversu mikið kemur í hlut þeirra sem eiga rétt á greiðslu þegar félaginu verður slitið.
Óvissu gætir um stöðu Giftar, ekki síst í ljósi þess að Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagafjarðar, hætti sem stjórnarformaður félagsins fyrir viku. Félagið er því án stjórnarformanns eins og sakir standa og alls óljóst hvort félagið á einhverjar eignir umfram skuldir.
Á sumarmánuðum í fyrra, þegar ákveðið var að vinna að slitum á hlutafé Samvinnutrygginga milli þeirra sem áttu rétt til greiðslu, sem voru hluti fyrrverandi tryggingataka hjá Samvinnutryggingum, var eigið fé Giftar um 30 milljarðar. Skuldirnar um 30 milljarðar en eignir um 60 milljarðar. Samkvæmt ársreikningi Giftar fyrir síðasta ár, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, tapaði Gift 12,5 milljörðum króna á síðustu sex mánuðum síðasta árs. Frá þeim tíma hafa eignir í skráðum félögum, sem voru meira en 90 prósent af eignasafni félagsins, annaðhvort þurrkast út eða rýrnað að lágmarki um 60 prósent. Munar þar mestu um Exista og Kaupþing, eins og áður sagði, en Gift átti einnig í Landsbankanum, Glitni og Straumi fjárfestingarbanka fyrir um tíu milljarða miðað við bókfært fé.
Um 40 prósent af skuldum félagsins í lok árs í fyrra voru í erlendri mynt en þar sem félagið hefur verið að selja eignir á þessu ári er ekki hægt að segja til um þær að svo stöddu. Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri Giftar, vildi ekki segja hver staða félagsins væri þegar Morgunblaðið leitaði eftir því í gær.
Kristinn Hallgrímsson, hæstaréttarlögmaður og formaður skilanefndar Samvinnutrygginga, gat ekki svarað því hvers vegna eignum hefði ekki verið skipt upp. Til stóð að gera það á haustmánuðum í fyrra en það hefur dregist og óljóst er hvort eitthvað verður til skiptanna.