Gunnar rólegur yfir lóðaskilum SMI

Hesthúsabyggðin á Glaðheimasvæðinu í Kópavogi.
Hesthúsabyggðin á Glaðheimasvæðinu í Kópavogi. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að fasteignafélagið SMI hafi skilað þremur lóðum til Kópavogsbæjar. Á lóðunum átti að byggja verslunar- og þjónustuhúsnæði gegnt Smáralindinni.

„Við erum þarna með verðmætasta byggingalandið undir viðskipti og verslun við mestu umferðaræð á landinu.“ Bærinn þurfi því ekki að kvíða framhaldinu.

Fasteignafélagið SMI hafði greitt um tíu prósent af 2,1 milljarða króna kaupverði lóðanna og hefur Kópavogsbær endurgreitt félaginu. Glaðheimasvæðið var selt samtals á 6,4 milljarða króna.

Gunnar segir lóðaskilin ekki vera stóran fjárhagslegan skell fyrir bæinn. „Þetta eru tafir fyrir Kópavogsbæ um eitt til tvö ár. En framkvæmdirnar hefðu ekki tafist svona ef við hefðum ekki átt í deilum við Garðabæ,“ segir Gunnar. „Ef ekki væri fyrir þær værum við löngu byrjuð á þessu svæði.“ Samkomulag hefur náðst um svæðið.

„Núna þarf að samþykkja aðalskipulag á Glaðheimasvæðinu; við erum ekki komin lengra. Síðan þarf að samþykkja deiliskipulag. Tillögur liggja fyrir að deiliskipulagi frá Kaupangri, sem fékk úthlutað um 60 prósentum af þessu svæði, og síðan þurfum við sjálf að leggja fram deiliskipulag fyrir hin fjörutíu prósentin af svæðinu.“ Kaupangur ætli að standa við sínar áætlanir.

Fyrir á Glaðheimasvæðinu er hesthúsabyggð Gusts sem fékk úthlutuðum lóðum á Kjóavöllum. Kópavogsbær greiddi um 3,2 milljarða fyrir lóðir Gusts en einnig tæpa tvo milljarða í uppbyggingu nýs svæðisins.

„Snillingarnir sem voru hérna 1988 í bæjarstjórn höfðu gert samkomulag við hestamannafélagið um að það fengi að vera þarna í fimmtíu ár, til 2038, beint í miðjunni og við Reykjanesbrautina. En sem betur fer náðu menn samkomulagi um að þeir flyttu upp á Kjóavelli.“  Þar sé búið að leggja götur og úthluta fólkinu í Gusti lóðum. Framkvæmdir séu að hefjast.

„Það má því reikna með að allir hestar verði farnir af Glaðheimasvæðinu á næsta ári,“ segir hann. „Það er því ekki verið að borga þeim eitt né neitt, en þeir mega eiga húsin eða bærinn rífur þau.“ Flutningur af Glaðheimasvæðinu hafi farið hægar vegna efnahagsástandsins.

Í Morgunblaðinu 11. janúar 2007 kom fram að auk 3,2 milljarða króna lóðaverðsins greiddi bærinn hestamönnum upp í kostnað vegna flutnings hesthúsahverfisins auk þess að fjármagna uppbyggingu nýs svæðis og gerð nýrra reiðhalla og reiðvega, og nam þessi kostnaður tæpum tveimur milljörðum króna.

Þá var einnig haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, forseta bæjarstjórnar Kópavogs, að hagnaður Kópavogsbæjar vegna sölu á Glaðheimasvæðinu næmi um 1,5 milljarði króna. Tveimur dögum fyrr hafði verið gengið frá sölu bæjarfélagsins til SMI og Kaupangs. SMI keypti 33.289 fermetra lands og Kaupangur 62.317 fermetra. Nú er ljóst gróðinn er ekki í hendi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert