Icesave skuldin er 640 milljarðar

Íslenska ríkið þarf að öllum líkindum greiða allt að  640 milljarða vegna Icesave, til að ná fullum sáttum  við Breta og Hollendinga en vonir standa til að eignir Landsbankans standi að mestu undir þeim skuldum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að samningur um Evrópska efnahagssvæðið gæti verið í uppnámi ef Icesave deilan leysist ekki.  Deilan snúi ekki bara að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum heldur snúist hún líka um grundvallaratriði á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta sé pólitískt deiluefni og það þurfi að finna pólitíska lausn.

Vonir standa til þess að deilan leysist í dag en fyrr kemst ekki jafnvægi á viðskipti milli Íslands og umheimsins.  Ingibjörg Sólrún segist vonast til að Icesave skuldirnar séu ekki þyngri baggi en hægt sé að rísa undir. Skuldirnar séu um 640 milljarðar brúttó en á móti því koma svo eignir Landsbankans.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, telur að eignir Landsbankans í London geti farið langt með að dekka skuldir vegna Icesave. Nýsamþykkt lagafrumvarp geri skiptastjórum kleift að reka fyrirtæki í allt að tvö ár áður en þau eru seld. Það ætti að hjálpa til að rétt verð fáist fyrir eignirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka