Háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði hefur leitt til alvarlegrar takmörkunar á samkeppni, samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins. Í álitinu segir að RÚV hafi í ríkum mæli vikið verulega frá birtri gjaldskrá sinni um auglýsingar, sem gengur gegn markmiðum um gagnsæi. Þá segir að vísbendingar séu um skaðleg undirboð, þ.e. að opinbert fé hafi verið notað til þess að niðurgreiða auglýsingastarfsemi. Samkeppni keppinauta sem ekki njóta ríkisstyrkja hafi þannig verið raskað.
Samkeppniseftirlitið hefur um nokkurt skeið haft málefni RÚV til skoðunar. í umsögn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf í lok árs 2006 benti Samkeppniseftirlitið á að að samkeppnislega mismunun leiddi af því að RÚV starfaði á markaði fyrir birtingu auglýsinga og markaði fyrir kostun í frjálsri samkeppni við aðra aðila, jafnframt því að hafa tekjur af skattfé til að inna af hendi skilgreinda útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þessi tvö atriði leiddu til þess að samkeppnisleg mismunun væri á markaði fyrir birtingu auglýsinga og markaði fyrir kostun í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Lagt var til að RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði eða að sérrásir yrðu stofnaðar sem væru á auglýsingamarkaði og tryggt væri að skattfé yrði að skattfé yrði ekki notað í rekstur þeirra rása.
Í ljósi þeirra sjónarmiða Samkeppniseftirlitsins sem fram komu í umsögn eftirlitsins um frumvarpiðog með hliðsjón af umræðu um aðstæður á auglýsingamarkaði í útvarpi og ábendingum og kvörtunum sem borist hafa Samkeppniseftirlitinu, ákvað stofnunin að eigin frumkvæði að kanna stöðu RÚV á markaði fyrir sölu auglýsinga og kostunar í útvarpi. Í áliti eftirlitsins segir m.a. að nú þegar samdráttur hafi orðið á auglýsingamarkaði, sem rekja megi til þróunar efnahagsmála á Íslandi síðustu vikur, hafi styrkur RÚV vegna þeirra tekna sem félagið nýtur í formi afnotagjalda sýnt sig enn betur. Af þeim ástæðum hafi gagnrýni á þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði verið enn harkalegri undanfarnar vikur en endranær. Samkepnniseftirlitið ákvað í því ljósi að leggja mat á hvort RÚV hafi í krafti forréttinda sinna raskað samkeppni með aðgerðum á auglýsingamarkaði.
Athugun Samkeppniseftirlitsins leiðir í ljós að auk þeirrar samkeppnislegu mismununar sem felst í þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði samhliða tekjum þess af skattfé, hafi RÚV með tilboðum sínum og afsláttum gert samkeppnistöðuna enn verri á þessu sviði.
„Þetta hefur RÚV gert með því að starfa ekki í samræmi við tilgang og markmið þeirra reglna sem settar hafa verið varðandi verðlagningu fyrirtækisins. Veitir það jafnframt vísbendingar um að regluverk um þessa starfsemi RÚV sé ekki nægilega öflugt. Þessi niðurstaða er m.a. byggð á eftirfarandi:
- RÚV hefur í ríkum mæli vikið verulega frá birtri gjaldskrá sinni um auglýsingar, sem gengur gegn markmiðum um gagnsæi.
- RÚV hefur boðið fríbirtingar, tímabundin eða einstaklingsbundin tilboð, vöruskipti og samtvinnun auglýsinga og kostunar sem ganga gegn kröfunni um gagnsæi um afsláttarkjör fyrir kostunaraðila og auglýsendur. Jafnframt er líklegt að tiltekin afsláttarkjör hafi ekki staðið öllum til boða og jafnræði því ekki tryggt.
- Vísbendingar eru um skaðleg undirboð, þ.e. að opinbert fé hafi verið notað til þess að niðurgreiða auglýsingastarfsemi og samkeppni keppinauta sem ekki njóta ríkisstyrkja þannig raskað,“ segir í áliti Samkeppniseftirlitsins.
Með hliðsjón af þessu hefur Samkeppniseftirlitið beint því til menntamálaráðherra að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Ljóst sé að fullur samkeppnislegur jöfnuður náist ef RÚV hverfur af auglýsingamarkaði og starfsemi þess yrði alfarið kostuð af opinberum fjárframlögum.
Samkeppniseftirlitið segir að með hliðsjón af núverandi efnahagsástandi geti slík aðgerð stuðlað að því að einkareknir ljósvakamiðlar geti starfað áfram.
Telji menntamálaráðherra hins vegar ekki tækt að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði, mælist Samkeppniseftirlitið til þess að verulega verði dregið úr umsvifum RÚV á markaðnum og félaginu settar skýrar reglur sem takmarka umrædda starfsemi þess. Nauðsynlegt sé að reglurnar feli m.a. í sér að sett verði ófrávíkjanleg gjaldskrá sem lúti staðfestingu og eftirliti, svokallaðar fríbirtingar verði óheimilar, auglýsingatíma og markaðssókn verði settar skorður, óheimilt verði að birta auglýsingar inni í dagskrárefni og kostun verði óheimil
Í álitinu er ennfremur áréttað að Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að samhliða endurskoðun á þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði verði sett löggjöf um fjölmiðla og eignarhald á þeim, m.a. í því skyni að tryggja dreift eignarhald.