Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi síðdegis, að það þokaðist í átt til lausnar á deilum um IceSave-reikningum Landsbankans og gert væri ráð fyrir að henni lyki með samkomulagi við Evrópusambandið. Sagðist Geir hafa ástæðu til að ætla að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki lánasamning við Ísland fyrir eftir helgina.
Geir sagði, að Íslendingar hefðu í viðræðum við Breta og Hollendinga og nú Evrópusambandið náð því fram, að ríkara tillit væri tekið til sérstöðu Íslendinga í efnahagsmálum en áður var og mikilvægum hagsmunum Íslands verði ekki stefnt í voða. Vísaði Geir m.a. í ummæli Björgólfs Guðmundssonar, fyrrum formanns bankaráðs Landsbankans, í Sjónvarpinu í gær, að eignir Landsbankans myndu væntanlega nægja fyrir skuldum.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að fyrst hefðu verið kröfur um að Ísland ábyrgðist allar innistæður á IceSave-reikningum en nú væri rætt um að Ísland ábyrgðist lágmarksupphæðina, sem kveðið er á um í tilskipun Evrópusambandsins, 20.887 evrur á hverjum reikningi.
Þau Geir og Ingibjörg lögðu áherslu á að Íslendingar hefðu ekki breytt þeriri afstöðu sinni að tilskipunin eigi ekki við þegar allt fjármálakerfið fellur eins og gerðist hér á landi.