Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, breytti með afsögn sinni viðmiðum í íslenskri pólitík að mati Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins. Guðni gerði skeytasendingu Bjarna Harðarsonar til fjölmiðla og afsögn Bjarna að umtalsefni í upphafi miðstjórnarfundar flokksins.
„Við skulum minnast þess að þjóðin mun gera ríkari kröfur til stjórnmálamanna um heiðarleika og drengskap. Ég fagna því. Fyrrum þingmanni okkar, Bjarna Harðarsyni, urðu á alvarlega mistök. Ég segi ætlunarverk sem var í senn ljótt og á ekki að eiga sér stað. Hann missti málið úr eigin höndum. Bjarni sagði mér að trúverðugleiki sinn væri farinn sem þingmanns, aðeins ein leið væri til að endurheimta hann, þ.e. að segja af sér þingmennsku. Þetta gerði hann einnig flokksins vegna. Mistök héðan í frá munu kalla á slík viðbrögð af hálfu stjórnmálamanna. Svo ekki fari á milli mála þá þykir mér vænt um Bjarna Harðarson og met hann mikils. Honum varð á í messunni og hefur axlað ábyrgð á því og þar með breytt viðmiðum í íslenskri pólitík,“ sagði Guðni Ágústsson á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins.